Þó svo að skólaskylda hér sé frá sex ára aldri, hefja flest börn sína skólagöngu í þriggja ára bekk á svokallaðri infantil deild. Skólaskyldustigin eru svo tvö, svipað og á Íslandi, primaria frá 1. – 6. bekk og svo secundaria í fjögur ár. Þeir sem hafa hug á að fara í háskólanám halda þá áfram í tvö ár til viðbótar til undirbúnings því. Aðrir hafa kost á að halda áfram í iðnnám eða annað sérnám.
Hér er fjöldinn allur af almennum hverfisskólum og svo auðvitað talsvert af einkaskólum líka. Einkaskólarnir geta kostað skildinginn en almenni skólinn kostar ekkert umfram bóka- og efniskostnað.
Evrópulöggjöf kveður á um að öllum börnum á skólaskyldualdri (6-16 ára) skuli veita skólavist þar sem þau búa, þannig að til að sækja um almennan skóla þarf að hafa búsetuvottorð. Þetta er í raun fremur einfalt ferli og best að fólk vindi sér í það þegar það er komið á svæðið og hefur fundið húsnæði við hæfi.