Við finnum fyrir miklum áhuga Íslendinga á því að koma til Tenerife og dvelja þar hluta úr ári eða til langs tíma. Hafa ber í huga áður en skrefið er tekið, að húsnæðisverð hér er allt annað en t.d. á meginlandi Spánar, hvort sem átt er við leiguverð eða kaupverð eigna. Því getur fólk ekki búist við því að fá sambærilegt verð hér og á meginlandinu.
Það mætti jafnvel segja að fólk sé að borga meira fyrir jöfnu veðráttuna ? Leiguverð norðanmegin á eyjunni er yfirleitt mun lægra en sunnan megin, og veðráttan önnur. Norðan megin finna eyjaskeggjar árstíðar mun líkt og á meginlandinu og allt grænna og fallegra þar en sunnanmegin.
Það sem ber að varast í íbúðarleit, hvort sem verið er að leita til leigu eða kaups, er að margar af stóru leitarsíðunum eru stundum með gamlar auglýsingar og verð sem gefa fólki falskar vonir. Þetta er allt með ráðum gert á leitarsíðum, þeir vilja að fólk sendi fyrirspurnir og oftar en ekki er svarið “æjji því miður, þessi eign VAR að leigjast út / seljast, en við erum með aðra sambærilega…” sem er svo kannski bara allt annað en sambærileg.
Langtímaleiga telst til 6 mánaða eða lengur, en þó er stundum hægt að semja um leigu í 3-4 mánuði. Oft er reglan sú að greiða þurfi eins mánaðar leigu fyrirfram og andvirði eins mánaðar í umboðslaun. Það fer allt eftir hvernig eigendur eigna hafa samið við sína umboðsaðila og því lítið við því að gera. Auðvitað eru einhverjar undantekningar á þessu en alla jafna er óhætt að miða við þetta.
Allur gangur er á því hvort reikningar séu innifaldir í mánaðarleigu eða ekki. Mælum með að spyrja áður en gengið er frá leigusamningi svo ekkert komi á óvart.
Þegar fólk hyggst dvelja á Tenerife til skemmri tíma en þetta er yfirleitt miðað við orlofsleigu sem er þá greidd per viku. Þegar fólk kemur til að dvelja í margar vikur er stundum hægt að gera sérstakan samning við leigusala og lækka vikuleiguna eitthvað, en það er þó ekki alltaf hægt.
Þegar kemur að útleigu fasteigna gilda nefnilega ekki sömu reglur um skammtímaleigu annars vegar, og langtímaleigu hins vegar. Skattar og gjöld eru t.a.m. mun hærri vegna skammtímaleigu heldur en langtímaleigu. Þess vegna getur verið erfitt, og í sumum tilvikum ómögulegt, fyrir eigendur að veita afslátt þótt þeir séu allir af vilja gerðir og gestir séu að koma í einhverjar vikur í senn eða jafnvel einhverja mánuði. Það sakar þó aldrei að spyrja.
Algengt leiguverð sunnan megin á eyjunni á íbúð með 1-2 svefnherbergjum er um 1.500€ á mánuði, allt eftir stærð, staðsetningu og íburð eigna. Margir sjá fyrir sér í hyllingum að koma hingað, vera í nýlegu húsnæði með stórri verönd, auka herbergi fyrir börn og barnabörn, vera við strönd, geta labbað í alla helstu þjónustu og njóta kaffibollans í sól og sumaryl á stóru svölunum sínum allan ársins hring. Þetta hljómar allt dásamlega, sem það vissulega er, en ef þú ert með fyrirfram ákveðna verðhugmynd sem er undir 1.000€ á mánuði í leigu, þá þarf jafnvel að endurskoða kröfurnar og huga að fórnarkostnaði. Viltu vera í minni eign? Minni svalir? Vera lengra frá aðal ferðamannasvæðinu? Hvar liggur fórnarkostnaðurinn þinn?
Aðal ferðamannasvæði Tenerife er á suðurhlutanum, frá Los Cristianos til Adeje, og þar vilja flestir vera. Þó landsvæðið sé ekki stórt í ferkílómetrum þá þarf samt að huga vel að staðsetningu ef fólk þekkir ekki vel til.
Ef slegið er inn í leitarvél íbúð í Los Cristianos, þá gæti leitin skilað eign sem er í sveitarfélaginu Arona sem Los Cristianos tilheyrir, en það er mun stærra en fólk gerir sér grein fyrir. En ef fólk er tilbúið að vera á öðrum svæðum Arona en Los Cristianos t.d. Palm Mar, Las Galletas eða fyrir ofan hraðbraut þá er hægt að finna það.
Á kortinu hér til hliðar má sjá hversu stórt Arona svæðið er, miðbær Los Cristianos er þar sem hjartað er á kortinu.

Sömu sögu er að segja með Adeje, sem nær frá Las Americas og aðeins norðan við Playa Paraiso. Ef þú hefur áhuga á að búa á Adeje þá þarf að fylgja með hvar á Adeje þú vilt vera. Í raun má kannski líkja svæðunum við Kópavog? Það þarf að taka fram hvar í Kópavogi maður vill vera áður en eign er skoðuð.
Þegar Adeje hlutinn er skoðaður þá nær hann líkt og Arona, einnig upp til fjalla. Vill fólk vera á Costa Adeje, Adeje þorpinu eða jafnvel í Callao Salvaje eða Playa Paraiso?

Eins og sjá má þarf stundum að leggja smá vinnu í leitina. Við getum því miður ekki bent á einhverjar leitar síður fremur en aðrar, við getum ekki tekið ábyrgð á því að það sem þar er að finna sé 100% traust. Við getum bara sett okkar nafn við það sem við höfum uppá að bjóða á okkar síðu hverju sinni.
Gangi ykkur vel.